Lög Njarðar

LÖG fyrir Lions-klúbbinn NJÖRÐ

1. gr.
Nafn klúbbsins er; LIONSKLÚBBURINN NJÖRÐUR, REYKJAVÍK.
Klúbburinn er aðili að Alþjóðasamtökum Lionsklúbba (The International Association of Lions Clubs), og starfar eftir reglum þeirra.

2. gr.
Markmið klúbbsins er að stuðla að framgangi mannúðar og menningarmála, jafnframt því að efla gagnkvæm kynni klúbbfélaga.

3. gr.
Klúbbfélagi getur orðið hver sá lögráða maður sem boðin er þátttaka í klúbbnum og uppfyllir væntingar klúbbsins og hreyfingarinnar til nýrra félaga.
Nú vill einhver klúbbfélagi mæla með inntöku manns í klúbbinn, kemur hann þá nafni viðkomandi og kynningu á framfæri við Félaganefnd sem kynnir klúbbfélögum að viðkomandi sé í skoðun, til þess að þá geti félagar komið fram athugasemdum við nefndina ef einhverjar eru. Hljóti maðurinn samþykki Félaganefndar er það kynnt stjórn sem þá býður viðkomandi að sækja fundi til að kynnast betur starfi klúbbsins. Óski maðurinn síðan eftir inngöngu í klúbbinn, er auglýst inntökuathöfn þar sem klúbbfélagar fagna nýjum félaga með lóftaki.
Meðmælandi nýs félaga ber ábyrgð á mætingu hans fyrsta ár hans í klúbbnum.

4. gr.
1. Mæti félagi ekki á fundum í þrjú skipti í röð, án löglegra forfalla, skal ritari vara hann við, sé þess kostur. Mæti félagi ekki á fjórum fundum í röð, án löglegra forfalla, jafngildir það úrsögn úr klúbbnum og skal félagi þá felldur af félagaskrá.
2. Nái félagi ekki að loknu starfsári 75% mætingu, að frádregnum löglegum forföllum, jafngildir það úrsögn úr klúbbnum og fellur hann þá af félagaskrá. Mæting hjá öðrum klúbbum, á umdæmisskrifstofu, á formannafundum og stjórnarfundum, svo og þátttaka í nefndarstörfum fyrir eða á vegum klúbbsins telst mæting í þessu tilliti. Félagar skulu gera sér far um að ná sér í uppbótarmætingu. Ritari skal í janúarmánuði gefa félögum upp mætingarhlutfall sitt á fundi.
3. Lögleg forföll eru; fjarvera úr bænum, veikindi eða forföll vegna starfs, sem tvímælalaust má telja hindrun fyrir mætingu.
4. Stjórn klúbbsins skal heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að koma í veg fyrir að félagi falli af félagaskrá, enda sé fullkomin samstaða innan stjórnarinnar um það.
5. Að öðrum kosti verður manni ekki vikið úr klúbbnum nema með einróma samþykki fundar. Helstu brottvikningarástæður eru:
a. Synjun á greiðslu félagsgjalda klúbbsins.
b. Stórkostlegt skeytingarleysi, deyfð og sinnuleysi um starfsemi klúbbsins.
c. Hegðun svívirðileg að almenningsáliti.

5. gr.
Úrsögn úr klúbbnum skal vera skrifleg og skal hún send formanni eða ritara klúbbsins. Skal hún tekin til greina, ef viðkomandi er skuldlaus við klúbbinn.

6. gr.
Ákvörðun um árgjöld klúbbsins skal tekin fyrir á fyrsta reglulega félagsfundi eftir kjör nýrrar stjórnar ár hvert. Skal stjórnin leggja fram tillögu þar að lútandi og tilkynna í fundarboði.

7. gr.
Starfsár klúbbsins er 1. júlí til 30. júní.
Fundir skulu haldnir reglulega einu sinni í mánuði, allt árið um kring. Stefnt skal að því að félagar eigi aðrar samverustundir í hverjum mánuði með mökum eða öðru skylduliði þegar við á.
Stjórnin ákveður aukafundi eftir þörfum.
Félagsfundur kýs nefndir til þess að vinna að framgangi mála, er klúbburinn lætur til sín taka.
Hverjum félaga er heimilt að taka með sér gesti á fundi nema öðruvísi sé ákveðið um einstaka fundi.

8. gr.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum klúbbsins. Hann skal haldinn fyrir maílok ár hvert og skal boðað til hans á næsta reglulegum fundi á undan.
(br. 04/2009)

Dagskrá aðalfundar er:
a. Skýrslur stjórnar og nefnda klúbbsins. (br. 04/2009)
b. Kjör formanns
c. Kjör ritara og gjaldkera
d. Kjör þriggja manna varastjórnar
e. Kjör siðameistara og varasiðameistara
f. Kjör umsjónarmanns og varaumsjónarmanns
g. Kjör formanns Herrakvöldsnefndar.
h. Kjör endurskoðanda.
i. Kjör fulltrúa á umdæmisþing
j. Tillögur um lagabreytingar skulu bornar undir atkvæði enda hafi félagar átt kost á að kynna sér tillögur viku fyrir fund.

Reikningar starfsárins, sbr. 7. gr. Skulu lagðir fyrir sérstakan aðalfund eins fljótt og verða má eftir lok starfsársins og eigi síðar en í október ár hvert.

9. gr.
Stjórnin fer með málefni klúbbsins milli funda en formaður stýrir fundum. Stjórnin ber ábyrgð á heimasíðu klúbbsins. Ritari bókar fundargerðir, og tilkynnir fundi og efni þeirra með a.m.k. 4 daga fyrirvara. Ritari sér jafnframt um útgáfu félagatals. Gjaldkeri annast fjárvörslu og innheimtu gjalda. Umsjónarmaður sér um gæslu annarra lausafjármuna svo sem fána og annarra fundargagna. Hann skal sjá um að hafa merki Lionshreyfingarinnar til boða fyrir þá sem hafa týnt sínu.
Siðameistari hefur aga- og sektarvald. Hann skal þó fyrst og fremst leitast við að halda uppi léttum anda. Siðameistari nota sektir til að vekja athygli á jákvæðum hlutum jafnt og neikvæðum. Sektir þurfa ekki að vera peningasektir.
Siðameistari verður því aðeins sektaður að allir viðstaddir félagar samþykki. Sektir skulu renna í félagasjóð.

10. gr.
Starfsemi klúbbsins byggir að miklu leyti á nefndarstörfum bæði vegna fjáröflunar í líknarsjóð og vegna eflingar félgsstarfs. Stjórn klúbbsins ber ábyrgð á að starfsemi nefnda sé vel virk og skal hafa stöðugt eftirlit með þeirri vinnu sem þar fer fram.
Stjórn klúbbsins hefur heimild til þess að setja þeim nefndum, sem starfa á vegum klúbbsins sérstakar starfsreglur eða erindisbréf, enda samrýmist þær lögum klúbbsins og Alþjóðahreyfingarinnar. Skulu reglur þessar eða erindisbréf birtar með sama hætti og lög félagsins á vefsíðu klúbbsins.

11. gr.
Innan vébanda klúbbsins starfa tveir sjóðir: STYRKTARSJÓÐUR OG FÉLAGSSJÓÐUR.
Fjármunum sjóða þessara ber að halda algerlega aðgreindum, m.a. með því að hafa peningalegar eignir þeirra á aðgreindum bankareikningum. Tilfærslur úr Styrktarsjóði í Félagssjóð eru óheimilar.
Í Styrktarsjóð renna þeir fjármunir sem aflað er sérstaklega í þeim tilgangi að styrkja ýmis líknar- og menningarmál (sjá reglugerð). Stjórn klúbbsins skal, að höfðu samráði við Líknarsjóðsnefnd, gera tillögur um úthlutun úr Styrktarsjóði á félagsfundi, enda hafi þær verið rækilega kynntar á a.m.k. einum undangengdum félagsfundi.
Í Félagssjóð renna þeir fjármunir sem félagar afla fyrst og fremst meðal félaganna sjálfra, t.d. með hluta félagsgjalda, skemmtikvöldi (nú Sviðamessa), húsbréfasölu auk sekta frá siðameistara og annarra framlaga félaga, sem ákvörðun er tekin um hverju sinni og stangast hvorki á við lög Njarðar né Lionshreyfingarinnar.
Stjórn klúbbsins tekur ákvörðun um nýtingu fjármuna Félagssjóðs enda eingöngu nýttir í þágu félagsmanna og félagsstarfsins. Stjórn klúbbsins hefur þó ekki heimild til að ráðstafa nema 20% af eign sjóðsins hverju sinni án samþykkis félagsfundar.

12. gr.
Að því leyti sem lög þessi kveða ekki á um meðferð mála, hvort heldur er á stjórnarfundum eða almennum klúbbfundum, skulu gilda almennar viðteknar lýðræðisreglur og reglur alþjóðahreyfingarinnar.

13. gr.
Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi, sbr. 8. gr. j. með samþykki 2/3 hluta viðstaddra fundarmanna.

Reglur um nefndir og nefndarstörf.

Eftirfarandi nefndir starfa á vegum klúbbsins:
1. Herrakvöldsnefnd.
2. Fjármálaráð.
3. Styrktarsjóðsnefnd.
4. Félaganefnd.
5. Skemmtinefnd.
6. Laganefnd.
7. Lávarðaráð.
8. Húsbréfanefnd.
9. Sviðamessunefnd.
10. Frístundanefnd.

1. Herrakvöldsnefnd.
Formannsefni Herrakvöldsnefndar er ávallt síðastgenginn varaformaður hennar. Formaður H.nefndar skipar í starfsnefndir með skipunarbréfi. Gjaldkeri H.nefndar skal vera starfandi gjaldkeri stjórnar hverju sinni. Allar peningalegar tilfærslur herrakvölds skulu fara í gegnum sérstakan reikning í eigu Njarðar. Nákvæma verklýsingu vegna Herrakvölds má finna á heimasíðu Njarðar.

2. Fjármálaráð skal skipað 4 mönnum. Stjórnin skipar 3 og auk þeirra situr einn kjörinn skoðunarmaður ársreiknings Njarðar í nefndinni. Nefndin skal vera gjaldkera og stjórn til ráðgjafar og aðstoðar eftir þörfum.

3. Styrktarsjóðsnefnd.
Aðal fjáröflun klúbbsins til líknarmála er Herrakvöld Njarðar. Styrktarstjóðsnefnd skal fjalla um þau erindi um fjárstuðning sem stjórnin felur þeim. Jafnframt skal nefndin gera tillögur um á hvaða vettvangi fjármunum klúbbsins er best varið hverju sinni. Stjórn klúbbsins hverju sinni skipar í Styrktarsjóðsnefnd.

4. Félaganefnd.
Félaganefnd hefur það hlutverk að afla nýrra félaga í klúbbinn og sjá til þess að þeir nái að samlagast starfseminni. Félaganefnd skal jafnframt fylgjast með mætingu félagsmanna og hvetja þá til dáða sem sýna félagstarfinu lítinn áhuga. Þrír fyrrverandi formenn skipa Félaganefnd hverju sinni.

5. Skemmtinefnd.
Skemmtinefnd hefur það verkefni að sjá um undirbúning og stjórnun á skemmtanasviðinu. Helstu verkefni nefndarinnar er skipulagning samverustunda með mökum eða skylduliði t.d. leikhúsferða, fjölskyldukeilu og jólaballs. Skipað er í Skemmtinefnd af stjórn klúbbsins.

6. Laganefnd.
Laganefnd hefur það verkefni að endurskoða lög félagsins og koma með tillögur um úrbætur á þeim. Laganefnd skal jafnframt sjá til þess að lög Fjölumdæmisins 109 og lög Njarðar séu félagsmönnum aðgengileg, og gera athugasemdir ef þeir telja félagsmenn gerast brotlegir gegn þeim. Stjórn klúbbsins hverju sinni skipar í Laganefnd.

7. Lávarðaráð.
Lávarðaráð er heiðursnefnd eldri félaga í klúbbnum. Stjórn klúbbsins hverju sinni ákveður verkefni fyrir ráðið. Félagar í Lávarðaráðinu eru þeir félagsmenn sem náð hafa 75 ára aldri.

8. Húsbréfanefnd.
Húsbréfanefnd hefur það verkefni að afla fjár í Félagssjóð. Stjórn klúbbsins hverju sinni skipar í Húsbréfanefnd sem skal skipuð 3 mönnum.

9. Sviðamessunefnd.
Sviðamessuefnd skal sjá um undirbúning og framkvæmd skemmtikvölds til öflunar tekna í félagssjóð. Nefndina skal skipa 3 mönnum. Nefndin skal hafa samráð við stjórn Njarðar um framkvæmd skemmtikvöldsins.

10. Frístundanefnd.
Frístundarnefnd skal skipuð 3 mönnum og hafa að markmiði að skipuleggja útivistarferð i byrjun sumars.

Aðrar reglugerðir.

Siðameistari má til dæmis sekta fyrir:
• afmæli
• merka atburði í lífi félaga
• vel unnin störf nefnda
• merkisleysi
• óstundvísi
• brottför af fundi án leyfis
• framíköll á fundum
• óþarfa málæði
• ónæði vegna farsímanotkunar.